mandag den 9. februar 2015

Garnaflækjan 5 ára



Já það eru komin 5 ár síðan prjónakonur á Kaupmannahafnarsvæðinu tóku upp á því að hittast einu sinni í mánuði.

Ég var tiltölulega nýflutt til Kaupmannahafnar þegar ég rakst auglýsingu, held á Facebook tilkynningu um að stofna ætti prjónaklúbb.
Þetta var eitthvað fyrir mig, var búin að fara nokkrum sinnum á prjónakaffi á Íslandi svo mig langaði mikið að taka þátt í svona viðburði, hitta íslenskar konur og prjóna.



Fyrsti fundur var haldinn á veitingastað og var mæting góð, en ekki nærri því allar með prjóna.  Það var mjög gaman að hitta allar þessar konur en staðurinn var ekki sérlega góður til að prjóna, enda veitingastaður.

Ég man reyndar ekki hvar næstu prjónuklúbbur var haldinn, en fljótlega færðist þessi viðburður yfir í Jónshús, sem er frábær staður til að vera með prjónaklúbb, góð birta, við getum sjálfar séð um veitingar og nálægt lestarstöð, em er mjög mikilvægt þegar maður býr í útlöndum. 

Fyrsta fimmtudag í mánuði hittumst við og prjónum. Konurnar sem mæta eru á öllum aldri, það er smá kjarni sem mætir næstum því alltaf.  Mæting er misgóð, við höfum einu sinni verið 9 og nokkrum sinnum næstum því 30, en oftast erum við ca 15 sem mætum og njótum þessa að vera saman, prjóna, spjalla og gæða sér á köku.  Við höfum haft þann háttinn á að við skiptumst á að koma með eitthvað sætt með kaffinu.


Prjónahittinginn í desember er alltaf með miklu jólaívafi og síðasti hittingur í júní fyirr sumarfrí er líka með aðeins með öðru sniði.  Síðan tökum við pásu í júlí og ágúst.


Alveg frá bryjun hefur þessi hópur kallast Garnaflækjan og hefur hópurinn gert eitt og annað en að hittast 1. fimmtudag í mánuði.  Við fórum m.a. einu sinni á jólamarkað í Þýskalandi og var það ógleymanleg ferð.


Mín kynni við Garnaflækjuna hafa verið góð og skemmtileg og hef ég kynnst mikið af frábærum konum sem í dag eru mínar bestu vinkonur.


Hægt er að finna Garnaflækjuna á FB 


Næsti fundur er fimmtudaginn 5. mars. 


Ingen kommentarer:

Send en kommentar