Síðustu tveir miðvikudagar hafa verið einstaklega skemmtilegir, ég hefi notið þess að sitja í bílnum með henni Kristínu Brynju og prjónað og njotið þess að horfa út um gluggann og sjá hvað landið er fallegt. Kristín Brynja hefur verið að keyra á milli prjónabúða úti á landi, Sjálandi og kynna garnbúðareigendum garnið ernrúm og uppskriftir.
Nú er ég búin að búa í Danmörku/ Kaupmannahöfn í nokkur ár en hef ég lítið sem ekkert af því að ferðast út á land. Þau skipti sem ég hef farið út á land hefur stefnan verið tekin á íþróttahús.
En nú var stefnan tekin á prjónabúðir.
Ekki spillti fyrir að verðið hefur verið fallegt og ég hef getað notið þess að horfa út um gluggann meðan Kristín Brynja keyrir um sveitir landsins. Staðirnir sem við höfum heimsótt hafa verið einstaklega fallegir og búðareigendur hafa tekið okkur mjög vel.
Sem betur fer erum við rétt að byrja, við eigum eftir að fara í nokkrar ferðir, það eru mjög margar prjónabúðir viðsvegar um landið og Kristín Brynja hefur valið þá leið að fara í útvaldar prjónabúðir og kynna garnið og uppskriftir. Það er óhætt að segja að móttökurnar hafi verið góðar og þær sem hafa tekið á móti segja að garnið einrúm sé ný og skemmtileg viðbót og uppskriftirnar flottar.
Dagur 1
Fyrst var stefna tekin á Holbæk, Garnbixen, risastór búð með mjög mikið úrval af garni og sérlega mikið úrval af prjónum og allskonar smáhlutum.
Síðan keyrðum við til Nykøbing Sj og hittum hana Hafrúnu sem rekur fallega búð sem heitir Salka Valka . Hjá Hafrúnu er að finna mikið af fallegum hlutum líka íslenskum eins og garn frá Istex, og ullarskokkar frá Varma og nú garn og prjónkit frá einrúm.
Nú lá leiðin í Búðina á hæðinni. Við fundum ekki búðina fyrr en í annari tilraun, þegar GPS tækið sagði að við værum komnar, litum við í kringum okkur og sáum bara tvo hús og ekkert annað. Nei þetta hlaut að vera einhver vitleysa, en þetta reyndist vera rétt, það var ekkert þarna nema Butikken ved højen. Falleg búð með fallegt og gott úrval af garni og líka allt fyrir þá sem hafa áhuga á bútasaumi.
Að lokum lá leið okkar til Roskilde, lítil búð mjög mikið garn og alveg brjálað að gera.
Dagur 2
Í gær lá leiðin niður landakortið og byrjuðum við að heimsækja hana Karen Becker, hennar búð er að finna í Fuglebjerg. Yndisleg búð, mjög mikið úrval af garni, tölum og bara öllu. Umhverfið var líka skemmtilegt, hægt að sitja úti og prjóna.
Þaðan keyrðum við til Nykøbing Falster og hittum hana Lenu sem er með yndislega búð sem heitir Mille Marengs, stór og falleg búð. Hjá henni er eingöngu hægt að kaupa gæða garn. Hún sagði okkur að það væri mjög mikill prjónaáhugi og hún væri með prjónakvöld tvisvar í mánuði, áhuginn er svo mikill að það er alltaf uppselt. Nú er hún ein af þeim sem er að skipuleggja prjónahelgi Strikkeweekend på Sydhavsøene í júní.
Að lokum keyrðum við til Møn, vá hvað þetta er fallegt umhverfi, bærinn sem við heimsóttum heitir Stege, greinilega mjög mikill ferðamannabær. Nicole garn heitir garnbúiðin í Stege, fallegt og björt búð með mikið úrval af garni og líka efni. Ég hef aldrei séð annað eins úrval af stórum flottum tölum.
Þar með lauk þessari ferð, gaman að sjá og fylgjsast með hvað garnið fær góðar móttökur.
Ingen kommentarer:
Send en kommentar